ÞG Verktakar eru í 54. sæti yfir fyrirmyndarfyrirtæki í flokki stórra fyrirtækja og einn stærsti byggingarverktaki landsins en félagið verður 20 ára á árinu.
„Það gengur vel og hlutirnir eru að ganga upp en það þarf að íhuga hvert verkefni alveg sérstaklega vel. Við erum bæði á útboðsmarkaði og í eigin verkefnum. Við höfum yfirleitt haft þá reglu að förum ekki í lóðir eða verkefni nema það liggi allt fyrir.
Bara á íbúðamörkuðum eru hátt í 1.000 íbúðir sem fara í gang á árinu. Það sem við erum búnir að fjárfesta í, þá er bara íbúðahlutinn um 850 íbúðir og það er eingöngu eigin verk. Það stefnir í langstærsta ár hjá okkur frá upphafi ef áætlanir ganga eftir á þessu ári,“ segir Davíð Már Sigurðsson, sölu- og markaðsstjóri ÞG verktaka, en um 80% af verkefnum sem félagið er með á sinni könnu eru fyrir eigin reikning en það getur þó tekið breytingum eftir verkefnastöðu hverju sinni. Auk íbúðarhúsnæðis eru ÞG Verktakar umsvifamiklar í byggingu atvinnuhúsnæðis. „Við erum stórir í Hafnartorginu til dæmis. Þar erum við með mikið af skrifstofum og svo erum við einnig með atvinnuhúsnæði á Dalvegi sem er nokkuð stórt,“ segir Davíð.
ÞG Verktakar hafa alla tíð verið reknir á sömu kennitölunni en Davíð segir fyrirtækið stolt af því og nota það við markaðs- og sölustarf. „Já, við erum það og gerum það mikið. Það sem við furðum okkur á er að fólk kynnir sér varla hver byggir íbúðina sem kostar 50 milljónir en það veit nákvæmlega hver framleiddi sjónvarpstækið eða ristavélina. Við bregðumst við öllu sem kemur upp og erum til staðar ef eitthvað kemur upp á og það er gríðarlega mikilvægt í svona uppgangi. Nú er verið að byggja mjög hratt og þá er hætta á að gallamál geti komið upp. Þess vegna er mikilvægt að skipta við fyrirtæki sem skilar góðu verki, er með góða gæðastýringu á byggingartímanum og verður til staðar ef eitthvað kemur upp eftir afhendingu,“ segir hann.