Hið árlega og stórskemmtilega golfmót ÞG Verk var haldið þann 18.ágúst á Kiðjabergsvelli. Þátttökulistinn eykst með hverju ári. Enginn fór holu í höggi á 7.braut og verða því verðlaunin sem að þessu sinni voru, golfbíll til eignar, að bíða enn um sinn eftir eiganda. Það fóru samt alls ekki allir tómhentir heim, því vegleg verðlaun voru fyrir fyrsta til þriðja sætið ásamt mörgum auka verðlaunum. Eiður Smári Guðjohnsen vann sérlega eftirsótta poppvél fyrir lengsta teighöggið á 13.braut og mátti greina öfund á meðal manna en það varði þó ekki lengi þegar Sveppi lét grínið dynja á Eið Smára og poppvélinni 😉

Sveppi hélt upp stuðinu þegar komið var í skála eftir vel heppnað mót þar sem veðrið lék við mannskapinn. Sveppi skóf ekkert undan og tók menn óspart fyrir öllum til mikillar gleði. Starfsfólk gólfskálans stóð sig einstaklega vel og ekki var hægt að greina hvort steikin hefði komið af grilli Argentínu eða skálans.

Mikil ánægja var á meðal hópsins og gleðin við völd. Það leið ekki langur tími þar til skipulagning á næsta móti hófst í rútunni á leiðinni í bæinn. Golfmót ÞG Verk er orðinn fastur liður hjá fyrirtækinu þar sem stjórnendur og samstarfsmenn eiga gæðastund saman.

Þökkum öllum kærlega fyrir komuna og sjáumst að ári.