Samningur var undirritaður við ÞG Verk vegna innanhússfrágangs á tveimur efstu hæðum meðferðarkjarna sem rýma legudeildir Landspítalans.
Um er að ræða hönnun og framkvæmdir upp á 14.000 fermetra og munu framkvæmdir hefjast á næstu vikum. Verklok eru áætluð haustið 2027.
Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Nýs Landspítala og mun gegna lykilhlutverki í starfsemi spítalans. Í meðferðarkjarna munu fara fram flóknar og vandasamar aðgerðir, greiningar og umönnun sjúklinga þar sem stuðst er við háþróaða tækni og sérhæfða þekkingu.
ÞG Verk hefur lokið uppsteypu á bílakjallaranum við nýja Landspítalann og er nú að vinna við uppsteypu og utanhúsfrágang á nýju húsi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem rísa mun á Landspítalalóðinni. ÞG verk og NLSH hafa því verið í góðu samstarfi í yfir 3 ár við uppbyggingu nýs Landspítala.
Þorvaldur Gissurarson segir: „Innanhússfrágangur 5. og 6. hæðar meðferðarkjarna er umfangsmikið og krefjandi verkefni en um leið spennandi og skemmtileg áskorun. Það er ánægjulegt að undirrita nú samning og hefjast handa, við hjá ÞG verktökum erum full tilhlökkunar að takast á við verkefnið”.
