Mikill viðbúnaður var á framkvæmdasvæði nýrrar Ölfusárbrúar á Selfossi þann 4 júlí þegar bráðabirgðabrú var hífð á stöpla sína. Brúin vegur 44 tonn og var hífð með stærsta krana landsins. Hún mun þjóna vinnuumferð út í eyjuna en þar þarf að reisa undirstöður fyrir 60 metra háan turn Ölfusárbrúar.
Verkið er í höndum ÞG verktaka og brúin er eingöngu ætluð vinnuvélum sem vinna að brúargerðinni. Á næstu vikum verður farið í að steypa undirstöður undir brúna á Efri-Laugardælaeyju
Samningur við ÞG Verk vegna byggingu Ölfusábrúar var undirritaður í nóvember síðastliðinn og þá var tekin fyrsta skóflustungan að framkvæmdunum. Síðan þá hafa verið gerðar jarðvegsrannsóknir og unnið við jarðvegsskipti. Í maí og júní var unnið að því að koma upp varnargarði og vinnuvegi í Ölfusá. Um 25 manns starfa nú daglega á svæðinu auk fjölda hönnuða, ráðgjafa og eftirlitsmanna, þar af margir erlendir sérfræðingar.
Áætlanir gera ráð fyrir að næsta sumar verði búið að byggja brúargólfið í landi austan árinnar. Stálvirkin koma væntanlega í byrjun næsta árs til landsins og þá verður farið í að setja þau saman. Þannig að næsta sumar verður brúargólfinu rennt yfir Ölfusána, yfir eyjuna og svo yfir á Vesturbakkann.
